Innlent

Bankar geta hækkað gjöld

Bönkunum er í sjálfsvald sett hvort þeir hækka gjald af lántakendum sem kjósa að greiða upp íbúðalán áður en lánstíma lýkur. Uppgreiðslugjald bankanna á nýjum lánum er nú tvö prósent samkvæmt gjaldskrá bankanna, það er hinsvegar ekkert sem kemur í veg fyrir að bankarnir geti hækkað það einhliða hvenær sem er. Alþýðusambandið deilir nú við bankanna um gjald fyrir uppgreiðslu nýju íbúðalánanna og hefur beðið bæði Samkeppnisstofnun og Fjármálaeftirlitið að skera úr um hvort verið sé að brjóta lög á lántakendum þar sem fyrir liggi samþykkt alþingis um að íbúðalán séu neytendalán. Ekki er heimilt samkvæmt lögum að leggja uppgreiðslugjald á neytendalán. Íbúðaeigendur sem vilja selja íbúðir sínar áður en lánstíma lýkur geta til að mynda þurft að greiða uppgreiðslugjaldið, ef kaupandinn vill ekki yfirtaka lánið, ef bankinn vill ekki skuldbreyta láninu á nýjan kaupanda. Gjaldið er um tvö hundruð þúsund fyrir tíu milljóna króna lán en gæti þess vegna hækkað um helming á morgun og orðið fjögur hundruð þúsund, því bönkunum er í sjálfsvald sett að breyta því hvenær sem er. Ekki er samið um neina fasta prósentu í upphafi. Íslandsbanki og Landsbanki, bjóða þó fólki að greiða upp lán með breytilegum vöxtum, án uppgreiðslugjalds í tiltekinn tíma á fimm ára fresti, þegar vextir verða endurskoðaðir eða semja að nýju til fimm ára um þá vexti sem þá verða í boði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×