Innlent

Lyfjaauglýsingar stöðvaðar

Lyfjastofnun hefur stöðvað sjónvarpsauglýsingar frá lyfjafyrirtækinu Glaxo-Smith-Kline um bólusetningar. Einungis er heimilt að auglýsa lausasölulyf, en þó skiptir máli í hvaða miðlum slíkar auglýsingar eru birtar. Í sjónvarpsauglýsingu frá Glaxo-Smith-Kline var fólk sem hyggur á ferðalög til fjarlægra staða varað við lifrarbólgu A. Lyfjastofnun hefur farið fram á að birting auglýsingarinnar verði stöðvuð, enda sé óheimilt að auglýsa lyfseðilsskyld lyf hér á landi. Lyfjaheiti eru þó hvergi nefnd í auglýsingunni heldur er fólk eingöngu hvatt til að leita sér upplýsinga hjá læknum um bólusetningu. Rannveig Gunnarsdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar, segir Glaxo-Smith-Kline einnig hafa sent bæklinga inn á heimili landsmanna og þar séu ákveðin lyf nefnd á nafn. Hjörleifur Þórarinsson, framkvæmdastjóri Glaxo Smith Kline, segir fyrirtækið hafa fengið undanþágu hjá heilbrigðisráðuneytinu fyrir prentuðu auglýsingunum. Við þá undanþágu kannast forstjóri Lyfjastofnunar ekki og segir að með réttu ætti að bera slíkt undir stofnunina. Lyfjafyrirtæki hafa fengið undanþágu til að auglýsa bólusetningarlyf og lausasölulyf en athygli vekur að þau má auglýsa í öllum öðrum miðlum en sjónvarpi.  Ástæðuna segir forstjóri Lyfjastofnunar vera þá að sjónvarpsauglýsingar séu áhrifameiri en blaðaauglýsingar. Heilbrigðisyfirvöld vilji ekki hvetja til aukinnar lyfjaneyslu og því megi ekki auglýsa lyf í sjónvarpi og skiptir þá engu hvort þau eru lyfseðilsskyld eður ei.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×