Innlent

Starfsfólk fylgir foringjunum

Nánustu samstarfsmenn Davíðs Oddssonar munu fylgja honum úr stjórnarráðinu við Lækjargötu í utanríkisráðuneytið við Rauðarárstíg þegar forystumenn stjórnarflokkanna hafa stólaskipti í dag. Sömu sögu er að segja um nánustu samverkamenn Hallldórs Ásgrímssonar. Illugi Gunnarsson, aðstoðarmaður Davíðs, Albert Jónsson skrifstofustjóri, Kristján Andri Stefánsson skrifstofustjóri, Margrét Hilmisdóttir ritari og Jón Árnason bílstjóri flytja sig öll um set og verða í starfsliði Davíðs í utanríkisráðuneytinu. Ólafur Davíðsson ráðuneytisstjóri fer einnig til starfa í hið nýja ráðuneyti Davíðs en hann verður sendiherra í Berlín. Halldór Ásgrímsson sagði í gær að ekki hefði verið ráðið í sendiherrastarfið. Björn Ingi Hrafnsson fylgir Halldóri úr utanríkisráðuneytinu og verður aðstoðarmaður hans í forsætisráðuneytinu og sama máli gegnir um bílstjóra hans og ritara. Þá tekur Bergdís Ellertsdóttir sendiherra við starfi í forsætisráðuneytinu og verður Halldóri til ráðuneytis um utanríkismál. "Ég legg mikla áherslu á góða samvinnu forsætis- og utanríkisráðuneytisins", sagði Halldór í gær.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×