Innlent

Sjálfstæðismenn vilja framkvæmdir

Sjálfstæðismenn ætla að leggja til á fundi samgöngunefndar borgarinnar í dag að hætt verði við að fresta mislægum gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Þau verði skilgreind sem forgangsframkvæmd og markvisst haldið áfram því ferli sem þegar er hafið með mati á umhverfisáhrifum. Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir að þótt haldið verði áfram með umhverfismatið af fullum krafti taki það samt um eitt og hálft ár. Borgarfulltrúar R-listans beri nú þegar alla ábyrgð á því að gerð mislægra gatnamóta við Miklubraut-Kringlumýrarbraut hafi tafist í tíu ár. Í byrjun september var boðað til íbúafundar til að kynna hönnunartillögur um mislæg gatnamót á umræddum gatnamótum. Fundinum var hins vegar aflýst á síðustu stundu. Í kjölfarið sagði Árni Þór Sigurðsson forseti borgarstjórnar að framkvæmdin væri ekki forgangsverkefni og ekki yrði ráðist í gerð mislægra gatnamóta við Miklubraut-Kringlumýrarbraut á næstu árum. Gerð umferðarmannvirkisins kostar um tvo komma sjö milljarða en áttatíu þúsund fara daglega þessa leið. Kjartan segir að það sé gríðarlegt hagsmunamál fyrir borgarbúa að framkvæmdin tefjist ekki meira en orðið er. Hann segir að hún muni greiða mjög fyrir umferð og stórlega draga úr slysahættu, loftmengun og hávaðamengun. „Ég hvet borgarbúa að beina því til R-listans að hann hverfi frá villu síns vegar og skipti um skoðun og fari í þessa framkvæmd sem fyrst," segir Kjartan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×