Innlent

Milljónasektir vegna afturvirkni

Tollayfirvöld endurskoðuðu nýlega tolla á matvöru sem flutt hafði verið til landsins í áratugi. Ákvörðunin var afturvirk sex ár aftur í tímann, eins og lög gera ráð fyrir og þurfti viðkomandi verslunarfyrirtæki að greiða fjörutíu og eina milljón í viðbótartolla löngu eftir að varan var seld. Samtök verslunar og þjónustu segja þetta ekki eina dæmið og hafa óskað eftir viðræðum við Fjármálaráðuneytið vegna málsins. Þau segja að svo virðist sem slíkum málum hafi farið fjölgandi og staðfest sé hjá tollyfirvöldum að gera megi ráð fyrir aukinni tíðni þeirra á næstunni. Gagnrýnt er að sex ára fyrningartíma sé of langur því vörur sem fluttar séu til landsins fari venjulega strax í endursölu og álagning miðist þá við þá tolla sem greiddir séu við innflutninginn. Emil B Karlsson hjá Samtökum Verslunar og þjónustu segir að þetta hafi valdið fyrirtækjum verulegum erfiðleikum. Hann segir þetta koma sér sérstaklega illa fyrir lítil fyrirtæki, sem selji vörur sínar jafn óðum og standi því ráðþrota ef endurskoðun mörgum árum síðar leiði í ljós að varan hafi verið í vitlausum flokki, sem geti valdið tugmiljóna króna sektum. Samtökin segja að eina leiðin fyrir fyrirtæki til að koma í veg fyrir að eiga yfir höfði sér endurákvörðun tollstjóra nokkur ár aftur í tímann, sé að krefjast bindandi álits tollstjóra í hvert sinn sem ný vara sé tollflokkuð. Það tefji þó tollafgreiðslu og auki verulega vinnuálag hjá tollstjóraembættunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×