Innlent

Svöðusár í andliti Flóans

"Við stöðvuðum efnistöku af toppi Ingólfsfjalls eftir að okkur barst úrskurður Skipulagsstofnunar til eyrna," sagði Magnús Ólason, annars forsvarsmanna Fossvéla á Selfossi. Fyrirtækið hefur unnið að efnistöku úr fjallinu, fyrst í eldri námu, en síðar með því að ýta möl ofan af toppi fjallsins niður í námuna. Mölin hefur verið notuð til ýmissa framkvæmda á Selfossi. Í úrskurði Skipulagsstofnunar, sem birtur var í lok vikunnar segir að óheimilt sé að vinna efni efst úr Ingólfsfjalli. Beinir stofnunin því til skipulags- og byggingarfulltrúa Ölfuss að stöðva framkvæmdir verktaka sem rutt hafa möl þaðan niður í eldri námu um margra mánaða skeið. Þessi úrskurður þýðir, að efnistaka uppi á fjallinu sé tilkynningarskyld til ákvörðunar á matsskyldu og þar með er ekki heimilt að vinna efni þar fyrr en hefðbundinni málsmeðferð er lokið. Landeigendur eða verktakar sem leigja námasvæðið geta áfrýjað þessum úrskurði til umhverfisráðherra "Ingólfsfjall er andlit Flóans," sagði Siggeir Jónsson yfirverkstjóri umhverfisdeildar Árborgar um efnistökuna í fjallinu. "Mér finnst þetta vera eins og svöðusár í andliti hans. En það heyrir undir annað sveitarfélag, það er Ölfus, svo við getum lítið sagt og illa beitt okkur í málinu. Þegar þeir voru svo komnir upp á fjallið líka og farnir að ýta fram af því, þá keyrði alveg um þverbak." Siggeir sagði ljóst, að verktakanir yrðu að finna aðra námu, yrði þessari lokað. menn væru að tala um að þetta væri svo ódýrt efni og héldi byggingarkostnaði á Selfossi niðri vegna þess að flutningskostnaður væri lítill. Önnur sveitarfélög, til dæmis Reykjavík, yrðu að flytja sitt efni um langan veg og Selfyssingar hlytu að geta það líka. "Mér finnst að menn verði að leita annarra leiða," sagði Siggeir. "Við þurfum að horfa til framtíðar, en ekki einungis viku eða tíu daga fram í tímann."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×