Innlent

Skaftafellsþjóðgarður stækkaður

Umhverfisráðherra kynnti á opnum fundi í Skaftafellsstofu í þjóðgarðinum í Skaftafelli í dag áætlun um stækkun þjóðgarðsins. Siv Friðleifsdóttur tókst ætlunarverk sitt, að sigla verkefninu í höfn áður en hún hættir sem ráðherra. Stækkunin tekur til syðri hluta Vatnajökuls og friðlýsta svæðisins í Lakagígum en þetta er fyrsta skrefið í stofnun þjóðgarðs sem næði til alls Vatnajökuls í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar frá árinu 2000. Á fundinum í dag skrifuðu fulltrúar Skaftárhrepps og sveitarfélagsins Hornafjarðar undir yfirlýsingu um að þau séu samþykk stækkuninni fyrir sitt leyti og að á næstunni fari fram kynning á stækkuninni. Í framhaldi af stækkuninni verða ráðnir tveir fastir starfsmenn í stöður landvarða. Samkvæmt frétt frá umhverfisráðuneytinu verður áfram unnið að því að jökullinn í heild verði innan þjóðgarðs. Náttúruverndarsamtökin fagna yfirlýsingu umhverfisráðherra en telja að jafnframt beri að vernda Langasjó sem rómaður er fyrir fegurð sína og verndargildi. Ennfremur beri ríkisstjórninni að fylgja eftir vinnu þingmannanefndar um stofnun þjóðgarðs norðan Vatnajökuls og friðlýsa allt vatnasvið Jökulsár á Fjöllum innan þjóðgarðsins. Þá segja Náttúruverndarsamtökin að hafa beri í huga að loftslagsbreytingar af mannavöldum geti breytt stærð Vatnajökuls á komandi áratugum. Því sé mikilvægt að mörk Vatnajökulsþjóðgarðs verði föst en fylgi ekki hopi jökulsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×