Innlent

Átak gegn innbrotum

Algengast er að innbrotsþjófar láti til skarar skríða í Árbæjar- og Höfðahverfi. Innbrot í bíla eru algengust og þjófarnir oftast ungir karlar. Þetta er meðal þeirra upplýsinga sem Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur aflað í tengslum við átak um að fækka innbrotum. Lögreglustjórinn í Reykjavík stefnir að því að tuttugu prósenta fækkun verði á innbrotum í umdæminu á þessu ári. Það sem af er hefur sæmilega tekist að ná því markmiði en í lok ágúst hafði innbrotum fækkað um tólf prósent milli ára. Árangurinn er þakkaður bættu upplýsingaflæði innan lögreglunnar, eins og hverjir brjótist inn og hvar. Einnig er í smíðum rafrænn gagnagrunnur með götukorti og segir Karl Steinar Valsson aðstoðaryfirlögregluþjónn að það sé unnið í samvinnu Lögreglustjórans í Reykjavík og Ríkislögreglustjóra. Ætlunin er að stýra lögregluliðinu að nokkru leyti eftir gagnagrunninum sem líklega verður tilbúinn í lok ársins. Spurður hvort hann lofi auðgunarbrotalausu Íslandi árið 2010 segist Karl Steinar ekki gera það.  Þá gleðst embættið yfir því að vopnuð rán hafa öll, nema eitt, verið upplýst og jafnvel eru dæmi um að þýfi og þjófar hafi fundist áður en tilkynnt var um innbrot. Algengast er að hlutum sem auðvelt er að koma í verð sé stolið eins og fartölvum, skjávörpum og geislaspilurum. Raunar hefur sérstök gjaldskrá verið í gangi í fíkniefnaheiminum þar sem gramm af amfetamíni hefur fengist fyrir spilara. Til að koma í veg fyrir slík viðskipti er brýnt að fólk sé vakandi og geri lögreglu viðvart ef því er til dæmis boðin ný fartölva til sölu á fimmtíu þúsund krónur. Algengast er að brotist sé inn í fyrirtæki og íbúðarhús í Árbæjar - og Höfðahverfi og í miðbænum. Skráð innbrot fyrstu átta mánuði ársins eru um 1100. Þar af hefur verið kært í um 200 tilvika. 162 voru að verki og þótt karlar séu að verki í miklum meirihluta, var sá sem oftast var kærður kona en sú hafði verið kærð átta sinnum á jafn mörgum mánuðum. Myndin er sviðsett.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×