Innlent

Börn á biðlista eftir daggæslu

Börnum er mismunað þar sem þau komast ekki öll að í daggæslu á frístundaheimilum Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur eftir skóla, segir móðir sjö ára drengs. Æskulýðsfulltrúi ÍTR segir starfsfólk skorta sem sé eina fyrirstaða þess að börnin komist að. "Ég er ekki með heildarsýnina yfir hversu mörg börnin á biðlista eru. Við erum að safa upplýsingunum saman og höfum þær tölur tilbúnar á mánudaginn. Skóladagvistun er ekki lögbundin þjónusta en það er vilji Reykjavíkurborgar að veita hana. Við erum öll að vilja gerð og höfum verið að auglýsa eftir starfsfólki," segir Soffía Pálsdóttir, fræðslustjóri ÍTR. Hún segir erfiðara að fá fólk í hlutastarf í úthverfin heldur en í miðhluta borgarinnar og biðlistar því á nokkrum dagvistunarheimilanna þar. Helga Þórðardóttir, forstöðumaður fjölskylduþjónustunnar Lausnar, segir Reykjavíkurborg gefa út að dagvistun sé í boði fyrir öll börn í Reykjavík en svo sé ekki. "Það var verið að breyta fyrirkomulaginu á daggæslunni. Hún var áður í höndum skólans. ÍTR gerði greinilega ekki ráð fyrir svona mörgum börnum," segir Helga. Ásamt syni hennar hafi um tíu börn úr árgangnum ekki komist að í daggæslu í Víðiseli eftir skóla: "Við fjölskyldan vorum heppin þar sem nágrannakona okkar sem er nýflutt í hverfið bauðst til að hafa drenginn með sínum þar til annað hvort okkar kæmi heim úr vinnunni. Þannig að það er tilviljun að við gátum leyst okkar vanda." Helga segir að hún hafi ekki vitað af breytta fyrirkomulaginu þegar hún staðfesti skólavist sonar síns. Á heimasíðu skólans hafi verið gamlar upplýsingar. Hún hafi því misst af lestinni þar sem umsóknarfresturinn rann út í vor. "Við skólasetningu fengum við að vita að búið væri að loka fyrir inntöku í daggæsluna," segir Helga. Soffía segir mjög margir foreldrar hafi sótt of seint um. "Það er sérstakt að fólk komi 23. ágúst og ætlist til að fá pláss. Flest ef ekki öll börnin sem eru á biðlista sóttu mjög seint um."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×