Innlent

Gatnakerfi Reykjavíkur sprungið

Gatnakerfið í Reykjavík er sprungið og annar ekki hratt vaxandi umferðarþunga. Þetta hefur leitt til stöðugrar fjölgunar umferðarslysa ár eftir ár, að mati Sjóvár-Almennra. Lélegar merkingar á svæðum þar sem viðgerðir standa yfir auka slysatíðni mjög. Í fyrra slösuðust þrír til fjórir á dag í umferðinni í Reykjavík en síðustu ár hefur umferðarslysum fjölgað verulega í borginni. Sjóvá-Almennar hafa tekið saman tölur um slysin í fyrra. Flest urðu þau við gatnamót og það eru, sem fyrr, við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar sem flest slysin verða. Einar Guðmundsson, forvarnarfulltrúi Sjóvár Almennra, segir göturnar ekki bera umferðarþungann Það er þekkt staðreynd að þegar gatnaframkvæmdir standa yfir fjölgar slysum verulega. Þegar verið var að vinna við gatnamótin þar sem Reykjanesbraut, Smiðjuvegur og Stekkjabakki mætast, urðu þau skyndilega önnur slysahæstu gatnamótin; skutust þar upp úr sextánda sætinu. Flest slysin má rekja til þrenginga sem voru vegna framkvæmdanna. Einar segir ekki nógu vel staðið að því að merkja og undirbúa ökumenn fyrir slíkar framkvæmdir. Samkvæmt Sjóvá-Almennum var kostnaður samfélagsins í fyrra vegna umferðarslysa í Reykjavík um þrír milljarðar króna. Kostnaður tryggingafélaganna var svipaður. Einar segist óttast að ef engar úrbætur verði gerðar á gatnakerfinu muni verða stöðug aukning mannskæðra umferðaslysa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×