Innlent

Neyðaropnanir standa með lásasmiði

"Ég stend með Gústa en það næst ekki í hann," segir Grétar Eiríksson lásasmiður sem rekur Neyðaropnanir ehf. Gústi er maður á hans vegum sem hleypti blaðamanni DV inn í íbúð sem hann átti ekki án þess að biðja hann um sannanir fyrir því að hann byggi þar. Það var ekki fyrr en blaðamaðurinn hringdi í lásasmiðinn í annað sinn, að hann hringdi í lögreglu fyrir framan blaðamann. Þá hafði blaðamaðurinn kynnt sig fyrir honum og útskýrt tilraunina sem lásasmiðurinn hafði fallið fyrir. Lásasmiðurinn virðist síðan hafa greint yfirmanni sínum og lögreglunni frá því að hann hefði hringt í lögreglu fyrr en hann í raun gerði. Þegar blaðamaður hafði farið inn í íbúðina og lásasmiðurinn var á bak og burt, ætlaði blaðamaður að athuga hvort aðrir lásasmiðir féllu fyrir sams konar tilraun, hringdi hann í annað númer þar sem sami lásasmiður svaraði. Grétar vildi ekki ræða málið fyrr en rétt yfirvöld hefðu tekið ákvörðun um hvað þau muni gera. DV ákvað að kanna hvort mögulegt væri að fá hjálp lásasmiðs við að komast inn í íbúð annarra. Það var í ljósi frétta frá því í sumar þegar fólk kom fram í viðtölum við blaðið og skýrði frá því að innbrotsþjófar hefðu brotist inn í íbúð þeirra með hjálp lásasmiðs. Þá fullyrtu fyrirtækin sem opna hús fyrir fólki að slíkt gæti alls ekki gerst. Fjallað er um málið í helgarblaði DV í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×