Innlent

Leitar álits Umboðsmanns Alþingis

Helga Jónsdóttir borgarritari ætlar að leita álits umboðsmanns Alþingis á ráðningu í embætti ráðuneytisstjóra félagsmálaráðuneytisins. Hún gefur lítið fyrir rökstuðning ráðherra um stöðuveitinguna. Helga Jónsdóttir krafðist þess af Árna Magnússyni félagsmálaráðherra að hann rökstyddi ráðningu í embætti ráðuneytisstjóra. Hún var meðal þeirra þriggja sem talin voru hæfust, auk Ragnhildar Arnljótsdóttur, sem fékk stöðuna og Hermanns Sæmundssonar, setts ráðuneytisstjóra. Greinargerðin er fjórar síður að lengd. Þar kemur fram að ráðherra hafi, eftir að hafa rætt við umsækjendur, ákveðið þau sjónarmið sem hann ætlaði að leggja til grundvallar valinu. Þau eru menntun, starfsreynsla sem nýtist ráðuneytisstjóra faglega og við stjórnun, forystuhæfileikar og hæfni í mannlegum samskiptum, ásamt frammistöðu í starfsviðtali og mati á meðmælum. Síðan fjallar greinargerðin um hvers vegna Ragnhildur Arnljótsdóttir var ráðin, en ekki er fjallað um hvers vegna Helga fékk ekki starfið. Helga segir að henni finnist rökstuðningurinn heldur klénn og það komi sér á óvart að hann sé ekki studdur neinum gögnum. Hún segir það skylduráðherra að gæta þess að málefnaleg sjónarmið ráði, s.s. varðandi reynslu, menntun og fleira. Félagsmálaráðherra kemst að þeirri niðurstöðu í rökstuðningnum, eftir á að sögn Helgu, hvaða hæfniskröfur hefði átt að gera, en rökstuðningur fyrir því hvernig staðið er valinu er ekki að finna í greinargerðinni. Helga segist ekki geta gert annað en að leita til þess aðila sem samkvæmt íslenskum lögum fer yfir mál yfir þesu tagi, það er Umboðsmanns Alþingis.  Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi borgarstjóri, hefur sagt það með ólíkindum gengið hafi verið fram hjá Helgu, sem hefði hvað mestu reynsluna og þekkinguna á sviði stjórnsýslu. Hún sagði að það gæti hafa haft sitt að segja að Helga hafi verið náin samstarfsmanneskja hennar. Í greinargerð ráðherra er nefnd mikilvæg reynsla Ragnhildar Arnljótsdóttur af störfum á Evrópuvettvangi á fagsviði ráðuneytisins og sú þekking nýtist beint í mikilvægustu verkefnum þess.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×