Innlent

Leitað að konu í stöðu rektors

Nú þegar Páll Skúlason hefur gefið það út að hann hyggist ekki sækjast eftir endurkjöri sem rektor háskóla Íslands hafa þær raddir gerst æ háværari að kona verði kjörin í starf rektors en kona hefur aldrei gegnt því starfi. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins kom hópur kvenna, sem starfa við Háskóla Íslands, saman strax á fimmtudagskvöldið til þess að fara yfir það hvaða konur væru frambærilegar. Fyrr um daginn hafði Páll lýst því yfir að hann hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri. Einungis tveir af tíu æðstu stjórnendum skóla á háskólastigi í landinu eru konur. Af framangreindu er ljóst að til er hópur kvenna í háskólasamfélaginu sem vill að þetta hlutfall verði leiðrétt. Fyrsta skrefið er þá væntanlega að frambærileg kona verði í kjöri til rektors Háskóla Íslands. Nokkrar konur hafa þegar verið nefndar en sú sem oftast hefur verið nefnd er Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, prófessor í mannfræði og fyrrverandi alþingiskona. Á meðal annarra kvenna sem einnig hafa verið nefndar eru Helga M. Ögmundsdóttir, prófessor í læknadeild, og Kristín Loftsdóttir mannfræðingur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×