Innlent

Börnunum líður vel í leikskólanum

Um 98 prósent foreldra barna í leikskólum Reykjavíkur telja að barn þeirra sé mjög eða frekar ánægt í leikskólanum. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem leikskólarnir létu gera. Samkvæmt könnuninni segja 99 prósent foreldranna að barninu líði mjög eða frekar vel í leikskólanum. Þegar viðhorf foreldra til foreldrasamstarfs eru skoðuð kemur fram að um 91 prósent foreldra eru mjög eða frekar ánægðir með samstarfið við leikskólann. En veikleikinn felst í kynningu nýrra starfsmanna þar sem aðeins 63 prósent foreldra eru mjög eða frekar ánægðir með kynningu á nýju starfsfólki. Athygli vekur að þegar spurt er um hvort leikskólinn hafi gefið út námskrá eru 52 prósent foreldra sem svara því játandi en 11 prósent neitandi. Þá er einnig athyglisvert að 36 prósent foreldra segjast ekki vita hvort leikskólinn hafi gefið út námskrá. Könnunin stóð yfir frá 25. maí til 1. júní. Í úrtaki könnunarinnar voru foreldrar 3.366 barna í 42 leikskólum úr öllum hverfum borgarinnar. Svör bárust frá 1.306 foreldrum eða tæplega 40%. Hæsta svarhlutfall foreldra í einstaka leikskóla var 61,19% en það lægsta 22,64%.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×