Innlent

Óljósar kröfur útvegsmanna

Erfitt er að semja um kjör þegar viðsemjandinn veit ekki hvað kröfurnar hans kosta, segir Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands og beinir orðum sínum að Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Þar standi hnífurinn í kúnni í kjarabaráttunni. Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir ummæli formanns sjómanna koma sér á óvart: "Ég hélt að viðræðurnar væru í öðrum farvegi en þessum. Á síðasta fundi ríkissáttasemjara var ákveðið að sitja yfir kjaramálunum alla næstu viku og markmiðið er að ná saman." Sævar segir vilja útgerðarmanna óljósan: "Þeir hafa ekkert reiknað í dæminu og vita ekki hvað þeir eru að fara fram á. Það er klárt. Sáttasemjari er búinn að biðja báða um tölur. Við höfum reitt þær af hendi og einnig hvað við teljum að felist í kröfum útgerðarmanna í peningum en ég hef ekki séð þessar tölur frá LÍÚ." Friðrik segir tölurnar liggja fyrir. Útvegsmenn gefi sér forsendur og reikni út frá þeim. Þær tölur þekki Sjómannasambandið. Ekki sé hægt með óyggjandi hætti að segja hver þróunin í sjávarútvegi verði næstu árin. Forsendurnar sem menn gefi sér geti því verið misjafnar. Sævar segir útvegsmenn vilja ganga lengra en gert hafi verið með gerðardómnum árið 2001. Þá hafi verið tekið á fækkun mannafla um borð í skipunum. "En þeir vilja meira; mikill vill meira. Þeir vilja ganga lengra og taka það sem sparast til sín en ekki færa það þeim sem vinna störfin," segir Sævar og bætir við: "Við getum ekki lagt fyrir okkar umbjóðendur, sem þegar hafa lækkað um nær 20% í launum frá árinu 2002, samning sem lækkar laun þeirra." Friðrik segir ekki vilja útvegsmanna að lækka laun sjómanna. "Það vita jafnt sjómenn sem Sjómannasambandið. Ef þeir fá öflugri skip þá veiða þeir meira og fá hærri laun. Við erum að tala um að mæta breyttum aðstæðum í sjávarútvegi." Sævar segir að það komi að verkfalli sjómanna. "Við höfum yfirleitt haft afar góða þolinmæði. Undangengin tvö til þrjú skipti höfum við leyft þeim að draga okkur á asnaeyrunum í tólf til sextán mánuði. Núna eru þeir orðnir níu," segir Sævar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×