Innlent

Landhelgisgæslan fær nýja aðstöðu

Varðskipið Týr flutti nýtt varðskýli Landhelgisgæslunnar frá Njarðvík til Reykjavíkur í dag. Landhelgisgæslan fær nýja hafnaraðstöðu á Faxagarði þar sem varðskýlinu var komið fyrir. Undanfarin ár hefur verið rætt um að færa þurfi hafnaraðstöðu Landhelgisgæslunnar frá Ingólfsgarði því hún hefur ekki þótt henta nægilega vel fyrir varðskipin. Kaup á nýju varðskýli  hafa staðið til um nokkurt skeið, enda er gamla varðskýlið á Ingólfsgarði komið til ára sinna og uppfyllir ekki lengur kröfur sem gerðar eru til vinnuaðstöðu. Dómsmálaráðuneytið samþykkti í apríl á þessu ári að Landhelgisgæslan fjármagnaði nýtt varðskýli með fé úr Landhelgissjóði. Í framhaldi af því var smíði varðskýlisins boðin út. Tilboð voru opnuð í júní og var gengið til samninga við Vélsmiðjuna Eldafl sem átti lægsta tilboðið. Varðskýlið var smíðað í Njarðvík og flutti varðskipið Týr það til Reykjavíkurhafnar í dag. Vel gekk að koma því fyrir á varanlegan stað. Fyrirhugað er að varðskýlið og nýja hafnaraðstaðan verði tekin í notkun um mánaðarmótin september-október næstkomandi. Hafrannsóknarstofnun hefur einnig hafnaraðstöðu fyrir skip sín á Faxagarði og mun samnýta varðskýlið með Landhelgisgæslunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×