Menning

Ungt fólk lifir um efni fram

Að ungt fólk á Norðurlöndum lifi um efni fram er niðurstaða rannsóknar sem kynnt var á norrænni ráðstefnu sem nýlokið er hér á landi. Hún náði til fólks á aldrinum 18-29 ára í Noregi, Danmörku, Finnlandi og á Íslandi, en reyndar bara 32 einstaklinga. Lítill munur var á skuldasöfnuninni milli landa en hins vegar voru íslensku þátttakendurnir opnari að ræða sín fjármál en hinir sem virtust skammast sín meira fyrir stöðu sína. Gróa Másdóttir vann þetta verkefni fyrir Íslands hönd og var ánægð með hópinn sem þátt tók hér á landi. "Það voru ólíkir einstaklingar sem bjuggu við ólíkar aðstæður," segir hún og heldur áfram. "Þeir voru allir með skuldir á bakinu, sumir með neysluskuldir eins og símreikninga, kreditkortahala og tölvulán upp í stærri skuldir eins og húsnæðislán. Sumir voru með skuldir sem einhverjir aðrir höfðu komið þeim í. Flestir höfðu skapað sér þessar aðstæður sjálfir." Gróa telur engar fíkniefnaskuldir hafa verið í spilinu hjá hennar viðmælendum. "Sumir höfðu verið óheppnir með sín fjármál en einstaka hafði fulla stjórn á útgjöldunum og sýndi fram á að það væri hægt að skulda en lifa samt -- án þunglyndis. Til þess að standa í skilum þyrfti samt að spara og neita sér um ýmsa hluti eins og bara kaffihúsaferðir. Þeir sem sagt skáru niður til að mæta auknum útgjöldum," segir hún og tekur undir að slíka einstaklinga þyrfti að virkja til kennslu. "Það hefur sýnt sig að ungt fólk er móttækilegt og jákvætt fyrir fræðslu en það virðist bara vera skortur á leiðbeinendum um þessi mál innan skólakerfisins. Fólkið sem ég talaði við hafði ekki fengið neina tilsögn um þessi efni í grunnskóla. Því fannst bankar og fleiri stofnanir sýna ónóga ábyrgð í kynningum á kortum og ýmsum gylliboðum. Afleiðingarnar væru ekki teknar með í reikninginn og ungt fólk væri óduglegt að spyrja."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×