Innlent

Sýknaður af manndrápi af gáleysi

Fjörtíu og fjögurra ára Þjóðverji var, í Héraðsdómi Reykjaness, sýknaður af manndrápi af gáleysi þegar hann ók ölvaður og velti bíl á Krísuvíkurvegi þann 24. júlí síðastliðinn. Einn farþeganna í bílnum lést af áverkum sínum fimm sólarhringum eftir slysið. Bílstjórinn var sakfelldur fyrir ölvunarakstur og sviptur ökuréttindum í sex mánuði. Farbann sem Þjóðverjinn var úrskurðaður í skömmu eftir slysið rann út í gær. Þegar dómurinn var kveðinn upp vildi ákæruvaldið fá það staðfest hjá manninum að verjanda hans yrði heimilt að taka við áfrýjun ef til hennar komi. Þjóðverjanum var einnig gert að greiða sextíu þúsund króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna ella sæta fjórtán daga fangelsi. Honum var einnig gert að greiða fjórðung málsvarnarlauna verjanda síns. "Ég er ánægður með að hann skuli vera sýknaður af manndrápi af gáleysi. Það var ekki hjá því komist að hann fengi sekt fyrir ölvunarakstur og sviptingu ökuleyfis, það lá fyrir," segir Hilmar Ingimundarson, verjandi Þjóðverjans, um dóminn. Hilmar segir mikinn létti fyrir skjólstæðing sinn að vera ekki dæmdur fyrir að vera valdur að dauða samstarfsmanns síns. Í dómnum segir: "Þótt sú háttsemi ákærða að aka undir áhrifum áfengis sé bæði refsiverð og ámælisverð verður eigi sakfellt fyrir manndráp af gáleysi fyrir það eitt og sér. Til þarf að koma sönnun um beint orsakasamband milli þess ástands ákærða að vera undir áhrifum áfengis, slyssins og afleiðinga þess þannig að rekja megi slysið til þessa ástands ákærða." Þykir leika vafi á að hann hafi sýnt af sér slíkt gáleysi við akstur þegar slysið varð að það nægi til að dæma hann fyhrir manndráð af gáleysi. Litið er til þess að ekkert bendi til of hraðs aksturs heldur virðist sem hann hafi misst vald á bílnum í beygju. Þar var lausamöl og aðstæður erfiðar og ökumaðurinn var óvanur þeim aðstæðum. Allir vafi kom Þjóðverjanum um í hag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×