Innlent

Sækja um stöðu Hæstaréttardómara

Eiríkur Tómasson, sem Hæstiréttur taldi í fyrra heppilegan til að gegna stöðu hæstaréttardómara, sækir aftur um stöðuna nú. Það gera líka Hjördís Hákonardóttir og Allan Vagn Magnússon. Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttalögmaður og lagaprófessor hafði þegar skilað inn umsókn um stöðu Hæstaréttardómara í síðustu viku. Þrátt fyrir að Jón Steinar hafi verði duglegur að gagnrýna Hæstarétt í gegnum tíðina, hafa margir í lögmannastétt talið víst að hann fengi stöðuna nú, og nánast óþarft fyrir aðra að sækja um. Nú hefur komið í ljós að fleiri sækjast eftir stöðunni. Eiríkur Tómasson, lagaprófessor, Hjördís Hákonardóttir, dómstjóri, og Allan Vagn Magnússon, héraðsdómari, eru öll á meðal umsækjenda, en frestur til að sækja um stöðuna rennur út í dag og því kunna fleiri að bætast í hópinn. Eiríkur og Hjördís sóttu um stöðu hæstaréttardómara í fyrra, en þá skipaði Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, Ólaf Börk Þorvaldsson í embættið. Þá var Eiríkur annar þeirra sem Hæstiréttur taldi heppilegastan í stöðuna, en hinn var Ragnar Hall, sem gagnrýndi á dögunum í fréttum Stöðvar 2 hvernig staðið var að málum í fyrra. Hjördís Hákonardóttir kærði skipan Ólafs Barkar í fyrra til kærunefndar jafnréttismála, sem komst að þeirri niðurstöðu að á henni hefðu verið brotin jafnréttislög. Jón Steinar Gunnalugsson, hafnar því hinsvegar að búið sé að ákveða að hann fái stöðuna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×