Innlent

Tveir björguðust þegar bátur sökk

;Ég hef það þokkalegt. Ég er ekki búinn að átta mig á þessu, ætli maður geri það nokkuð fyrr en maður vaknar bátlaus í fyrramálið," sagði Halldór J. Egilsson útgerðarmaður og annar mannanna tveggja sem bjargað var þegar 19 tonna línubátur, Björgvin ÍS-468, sökk í gærmorgun út af Önundarfirði. Halldór og skipfélagi hans náðu að koma sér í flotgalla og um borð í gúmmíbjörgunarbát og náðu skipverjar Steinunnar ÍS að bjarga mönnunum um borð. Halldór segir sér auðvitað hafa verið brugðið þegar hann sá hvað var að gerast og sá að ekki fengist við neitt ráðið. Björgunarskipið Gunnar Friðriksson frá Ísafirði var kallað út ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar en hjálpin var afturkölluð þegar ljóst var að mennirnir væru komnir um borð í Steinunni ÍS, heilir og höldnu. Kallið kom klukkan rúmlega tíu í gærmorgun bæði frá neyðarsendi í gegnum gervihnött og sjálfvirka tilkynningaskyldukerfið og var hægt að staðsetja skipið strax og beina nærstöddum skipum og bátum á staðnum til aðstoðar. Björgvin ÍS sökk skömmu eftir að mönnunum hafði verið bjargað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×