Innlent

Bæta þurfi mataraðstöðu í skólum

Snúðar, snakk, súkkulaðistykki og gosdrykkir eru meðal þess sem eldri nemendur í íslenskum grunnskólum gæða sér gjarnan á í hádeginu, því ekki er boðið upp á hádegismat í öllum skólum. Hólmfríður Þorgeirsdóttir, verkefnisstjóri hjá Lýðheilsustöð, segir nauðsynlegt að bæta mataraðstöðu í skólum og auka forvarnir enda sé sykurneysla unglinga orðin gríðarleg. Það segir kannski allt sem segja þarf um matarvenjur íslenskra unglinga upp til hópa að ísbúðir séu jafnvel einn vinsælasti áfangastaðurinn í hádeginu, þegar svengdin kallar. Þó að sumir snæði skyr, brauðmeti og hollt nesti að heiman er því miður allt of algengt að snúðar, kleinuhringir, gosdrykkir og innihald grænna skrjáfandi poka séu uppistaðan í næringu íslenskra unglinga. Hólmfríður segir að sykurneysla hjá unglingum sé geigvænleg. Í landskönnun árið 2002 hefði komið í ljós að unglingsstrákar væru að borða 143 grömm af viðbættum sykri á dag, af því væri helmingurinn úr gosdrykkjum. Um 20% af allri orku sé að koma úr viðbættum sykri. En það er ekki eingöngu við ungmennin að sakast, enda ekki skrýtið að sætindin freisti þegar valið er af skornum skammti en í mörgum skólum er ekki mötuneyti sem býður upp á heitan mat. Hólmfríður segir að verið sé að vinna að því að bæta aðstöðuna í öllum skólum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×