Innlent

Umferðarteppa í Oddskarði

Aukin og breytt umferð um Oddskarðsjarðgöngin á Norðfjarðarvegi veldur vegfarendum vandræðum. Hjá Vegagerðinni fengust þær upplýsingar horft til tímabilsins 1. júní til 24. ágúst sé aukning umferðar 10 prósent frá síðasta ári. Frá áramótum talið hefur umferð aukist um 8 prósent. "Þó aukningin sé ekki mikil er þetta að verða slæmt ástand. Þungaflutningar hafa aukist gríðarlega, ekki síst eftir að Síldarvinnslan hóf slátrun á laxi í Norðfirði," segir Guðmundur Bjarnason, bæjarstjóri í Fjarðabyggð. "Göngin eru einbreið með tveimur útskotum og sennilega þau einu í heiminum með blindhæð. Fólk er bakkandi þarna fram og til baka þannig að úr er orðið verulegt vandamál ." Guðmundur segir ný jarðgöng milli Eskifjarðar og Norðfjarðar brýnasta hagsmunamál sveitarfélagsins. "Annað hvort þarf að fara sem fyrst í að gera ný göng, eða menn þurfa að eyða fleiri hundruð milljónum í að laga þessi göng og gera þau nútímalegri," segir hann og bendir á að jarðgöngin um Oddskarð hafi verið opnuð árið 1978 og því barn síns tíma. "Þau hafa verið mikil samgöngubót, en í dag eru þau orðin veruleg hindrun."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×