Innlent

Hélt sig hafa brennst af lýsi

Flugvél Icelandair tafðist um 9 klukkustundir á Heathrow-flugvelli í Lundúnum í gær, vegna ótta um að eiturefni væru um borð. Meint eiturefni reyndist vera íslenskt lýsi.  Farþegum Icelandair á Heathrow-flugvelli brá heldur í brún í gærdag þegar þeim var ekki hleypt um borð í vél félagsins sem var á leið heim til Íslands. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Flugleiða, segir að grunur vaknað um að eiturefni væru í vélinni og við slíkar aðstæður væri ekki teflt á tvær hættur, heldur yrði að rannsaka málið í kjölinn. Guðjón segir aðdraganda málsins þann að hlaðmaður sem var við vinnu í vörurými vélarinnar í London á hádegi í gær, taldi sig hafa brennst á höndunum við það að snerta efni sem lekið hefði úr einum kassanum. Þá hafi vaknað grunum um eiturefni og við það farið í gang ferli þar sem gengið væri út frá því versta. Guðjón segir að þá taki slökkvilið flugvallarins völdin og eiturefnateymi sé kallað til. Allt þetta hafi tekið drjúgan tíma og á meðan hafi ekki fengist neinar upplýsingar um hvað væri að gerast. Það var ekki fyrr en undir kvöldmat þegar fluvirki á vegum Icelandair kom út til London að fékkst staðfest að efnið væri meinlaust þorskalýsi. Guðjón segir að menn hafi verið búnir að finna út hvað þetta væri en flugvirkinn hafi auðvitað strax þekkt lyktina. Hlaðmaðurinn sem kom þessu öllu af stað var sendur til í rannsókn til læknis og reyndist auðvitað alveg óbrenndur. Guðjón telur að hann ætti að taka lýsi. Bið farþega til að komast heim varð síðan öllu lengri, þar sem áhöfn vélarinnar var komin yfir leyfilegan vinnutíma og ný áhöfn varð að koma frá Íslandi. Allir komust þó heim með seinni skipunum í nótt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×