Innlent

Metfjöldi á Menningarnótt

„Veðrið hefur verið yndislegt og ég hefði ekki getað ímyndað mér að svona vel tækist til,“ sagði Sif Gunnarsdóttir, verkefnastjóri Menningarnætur sem fram fór í Reykjavík í gær. Gríðarlegur mannfjöldi safnaðist saman í miðbænum og naut listar, menningar og skemmtunar og telur Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn að þegar mest var hafi að minnsta kosti hundrað þúsund manns verið í bænum. Skipuleggjendur voru yfir sig ánægðir með þann fjölda fólks sem safnaðist saman og naut mýmargra skemmtiatriða sem í boði voru vítt og breitt um bæinn. Listamenn af öllum toga mátti finna nánast í hverri götu og ekki skorti leiktæki fyrir smáfólkið. Umferð var mjög þung þegar líða fór að kvöldi og voru þess dæmi að almenningur legði bílum sínum nálægt Kringlunni og í Hlíðahverfinu og labbaði þaðan niður í miðbæ. Umferðin gekk þó stórslysalaust fyrir sig þrátt fyrir mannfjöldann. Ölvun var ekki áberandi enda sagði lögregla mun meira hafa verið um fjölskyldufólk í þetta sinn en fyrir ári síðan. Lögregla var þó ekki sýnileg þann tíma sem blaðamenn áttu ferð um. Á tveimur stöðum var áfengi selt á götum úti en slíkt er með öllu óheimilt. Hátíðin kom mörgum erlendum ferðamönnum verulega á óvart en fjöldi þeirra var einnig í bænum að skemmta sér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×