Innlent

Olíuverð áhrif á sjávarútveg

Hækkandi heimsmarkaðsverð á olíu getur aukið kostnað íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja um allt að þrjá milljarða króna á þessu ári að sögn Friðriks Arngrímssonar, framkvæmdastjóra LÍÚ. Hann segir rekstrargrundvöll margra útgerðarmanna í hættu. Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hækkað hratt og mikið á síðustu vikum og mánuðum. Bensín hefur hækkað um 12 prósent á þessu ári og munar um minna fyrir buddu meðalmannsins. Hækkun olíuverðs kemur hins vegar mun verr niður á sjávarútveginum. Friðrik segir að ef þetta ástand verður viðvarandi hafi það gríðarleg áhrif. Hann segir að ef verðið nú sé borið við verð fyrir einu ári, sé um að ræða kostnaðarauka vel á þriðja milljarð. Friðrik segir að þetta komi verst niður á þeim veiðum þar sem fari saman lágt afurðaverð og dræmar veiðar. Þá sé um að ræða tugi prósenta af heildarverðmæti, til dæmis á rækju og kolmunnaveiðum þar sem notuð eru mjög öflug skip. Friðrik segir að rækjuútgerðin geti til að mynda ekki bjargað sér fyrir horn með því að hækka verðið á rækjunni. Verið sé að keppa á erlendum mörkuðum og í rækjunni sé mikið framboð frá Kanada. Þar segir Friðrik að sé mikil veiði og olían skiptir þá því mun minna máli en Íslendinga. Hann segir fátt til ráða nema bíða og vona að verð lækki, en haldist olíuverð hátt áfram þá sé rekstri margra útgerðarmanna stefnt í voða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×