Innlent

Götumynd Aðalstrætis gjörbreytt

Götumynd Aðalstrætis, elstu götunnar í Reykjavík, er gjörbreytt og nýja hótelið þar er að taka á sig mynd. Fréttamaður Stöðvar kynnti sér framkvæmdirnar í dag, meðal annars í kjallara hússins þar sem talið er að rústir landnámsbæjar Ingólfs Arnarsonar sé að finna. Hótelið í Aðalstræti er óðum að taka á sig mynd en það verður tekið í notkun í apríl á næsta ári. Hótelið er um eitt þúsund fermetrar að grunnfleti og er í raun og veru þrjú hús sem eru tengd með nýjum byggingum. Með framkvæmdunum er verið að endurgera heildarmynd þessara sögufrægu götu. Ívar Þórisson hjá Íslenskum aðalverktökum segir meðal annars vera líkt eftir Uppsölum og Fjalakettinum sem áður stóðu við Aðalstrætið, og reyndar verði framhlið Fjalakattarins stæld nákvæmlega.  Herbergi hótelsins verða alls níutíu talsins. Ekki verður mikið eftir af upprunalega húsinu, sem var byggt árið 1760 að því er Ívar minnir, eða aðeins nokkrar spýtur. Frá Fógetagarði verður gengið út í garð þar sem verður kaffi- og veitingasala. Kjallari hótelsins er ógnarstór og nær allt undir Grjótagötu. Þar er að finna merkar rústir þess sem talið er vera landnámsbær Ingólfs Arnarsonar og verða þær varðveittar í stórum sýningarskála. Minjarnar hafa verið geymdar undir 180 tonnum af sandi og eru menn nú að hefjast handa við að dæla honum út. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×