Innlent

Margir fóru sökum troðnings

"Þetta var alveg á grensunni hjá okkur, ég efast um að við förum aftur í svona framkvæmdir á næstunni," segir Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands, um áhorfendafjöldann á landsleik Íslands og Ítalíu á miðvikudagskvöld. Rúmlega tuttugu þúsund manns sóttu leikinn, sem er met, en margir kusu að hverfa frá sökum troðnings. Að sögn Eggerts Magnússonar, formanns KSÍ, höfðu um nítján þúsund miðar selst klukkan fjögur á miðvikudag, svo ljóst var að metið frá 1968 myndi falla. Til að mæta eftirspurn var ákveðið að selja þúsund miða til viðbótar. Troðningurinn í stæðum varð slíkur að gripið var til þess ráðs að leyfa börnum að horfa á leikinn frá hlaupabrautinni umhverfis völlinn. Þetta mun hafa skapað eitthvað svigrúm í stæðum, en mannþröng þar var samt sem áður mikil. Geir segir að nokkrir hafi sett sig í samband við KSÍ og lýst yfir óánægju sinni. Þeir munu hafa fengið endurgreitt. Unnið er að því að stækka áhorfendastæði við Laugardalsvöll.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×