Innlent

Skólasókn 16 ára aldrei betri

Skólasókn 16 ára ungmenna hefur aldrei verið betri hér á landi en á síðasta ári. Heldur fleiri stúlkur en drengir eru í skóla og er munurinn mestur á Austurlandi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjum tölum frá skólamáladeild Hagstofunnar. Þar kemur fram að um 92 prósent 16 ára ungmenna stundi nám og er það um einu prósentustigi hærra en á árinu 2002. Þegar skólasóknartölur eru skoðaðar með tilliti til kynskiptingar má sjá að skólasókn 16 ára pilta á landsvísu er 90% en 16 ára stúlkna 94%. Munur á skólasókn kynjanna við 16 ára aldur er hverfandi á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi. Á öðrum landssvæðum er hann hins vegar umtalsverður stúlkum í vil, hæstur fjórtán prósentustig á Austurlandi. Þar fýsir pilta síður í skóla en stúlkur. Þá kemur einnig fram að hlutfall þeirra sem fara beint í framhaldsskóla eftir grunnskólanám er nú 91 prósent og hefur aukist um sex prósentustig frá árinu 1992. Strax að loknu fyrsta ári framhaldsskólans dregur hins vegar mjög úr skólasókn. Árið 2003 var hún 82% við 17 ára aldur og 74% við 18 ára aldur. Við 20 ára aldur er hún svo komin niður í 52%. Þá var brottfall nemenda úr framhaldsskólum, frá haustinu 2002 til haustsins 2003, 19,3% sem jafngildir því að um 4.100 nemendur hafi hætt eða tekið sér hlé frá námi. Brottfall er meira meðal karla en kvenna og meira í starfsnámi en í bóknámi. Brottfall var rúmum þremur prósentustigum hærra fyrir fimm árum, eða 22,3%.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×