Innlent

Sýslumaður útilokar ekki ábyrgð

Miklar kröfur hvíla á jörðinni Brautarholti á Kjalarnesi vegna gjaldþrots svínabúsins að Brautarholti. Kröfuhafar hafa fengið fjárnám í jörðinni. Rúnar Guðjónsson, sýslumaður í Reykjavík, stöðvaði uppboðsmeðferð þegar hann varð þess varð áskynja að Brautarholt væri óðalsjörð en sérlög gilda um slíkar jarðir. Veðsetningar og fjárnám á Brautarholti geta þess vegna verið í uppnámi. Kröfurnar munu nema hundruðum milljóna. "Það þarf að þinglýsa skjölum þegar jörð er gerð að óðalsjörð," segir Rúnar Guðjónsson, sýslumaður í Reykjavík, sem stöðvaði uppboðið um stundarsakir. Rúnar segir ekki venju hjá embættinu að svara spurningum fjölmiðla um einstök mál sem kunna að vera til meðferðar en þar sem málið hafi verið í fréttum segist hann ekki geta borið á móti tilvist þess. Aðspurður segir Rúnar ekki getað svarað hvers vegna hægt hafi verið að þinglýsa veðum á jörðina þar sem hún er þinglýst sem óðal hjá sama embætti. Hann segir hluta þinglýsinganna hafa farið fram fyrir allmörgum árum síðan. Þegar veðum á jörðinni var þinglýst hefði átt að koma á daginn að um óðalsjörð væri að ræða og um leið að óheimilt væri að taka veð í henni. Þá hefðu lántakandi og lánveitandi átt að fylgjast með hvort veðsetningarnar hafi verið heimilar. Rúnar segist ekki geta útilokað að sýslumannsembættið gæti dregist inn í skaðabótamál vegna þess að veðum í jörðinni var þinglýst. Rúnar segir málið vera í biðstöðu á meðan verið er að fara yfir málið með tilliti til jarðarlaga og ákvæða um óðalsjarðir. Skoða þurfi hvað verði gert í framhaldinu og búast megi við að óðalseigendur að Brautarholti verði kallaðir saman á fund. Rúnar segir eigendur, eða þá sem eiga rétt til óðalsins, geta leyst til sín kröfur eins og þær sem hvíla á Brautarholti. Ef eigendurnir gera það ekki er mögulegt að uppboð fari fram.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×