Innlent

Skiptimynt í fíkniefnaviðskiptum

Mikill fjöldi vopna og skotfæra fannst við húsleit í Reykjavík í fyrrinótt. Þrír menn um tvítugt voru handteknir. Vopnin reyndust vera þýfi, mörg úr innbroti í heimahúsi í Garðabæ. Tveir menn, þeir sem brutust inn í húsið í Garðabæ, voru í haldi lögreglunnar í Hafnarfirði í fyrrinótt þegar vopnin fundust. Þremenningarnir höfðu tekið við vopnunum hjá innbrotsþjófunum vegna fíkniefnaviðskipta. Á heimili eins þremenninganna sem voru handteknir í framhaldi af húsleitinni fundust tvær afsagaðar haglabyssur, 22 kalibera riffill, öxi, kasthnífur, fimm aðrir hnífar, hamar, kylfur og sverð auk hundraða skothylkja. Ein kylfanna var búin til úr girðingastaur. Lögreglan í Reykjavík framkvæmdi húsleitina í fyrrinótt en til stóð að lögreglan í Hafnarfirði myndi gera húsleit í sama húsi í gærmorgun. Algjör tilviljun var að málin sköruðust og unnu lögregluembættin í sameiningu við að leysa málið. "Við ætluðum að fá húsleitarúrskurð í Héraðsdómi Reykjaness í gærmorgun og leita í þessu sama húsi. Við vorum með tvo menn í haldi vegna málsins," segir Gísli Þorsteinsson, lögreglufulltrúi í Hafnarfirði. Gísli segir að byssunum þremur hafi verið stolið í innbrotinu í Garðabæ auk annarra vopna. Vopnunum var stolið í innbrotum víða á höfuðborgarsvæðinu, mörgum í innbrotinu í Garðabæ. Mennirnir sem tóku við vopnunum eru fæddir árin 1985, 1982 og 1981. Þeir hafa lítið sem ekkert komið við sögu lögreglu áður. "Það er sérstakt að finna svo mikið af vopnum hjá einstaklingum sem við þekkjum ekki. Aðgerð lögreglu hafði frekar stuttan aðdraganda," segir Karl Steinar Valsson hjá lögreglunni í Reykjavík. Í fyrstu voru höfð afskipti af tveimur mannanna sem voru í bíl í Lágmúla. Í framhaldinu var fengin heimild til húsleitar hjá öðrum þeirra. Þriðji maðurinn var staddur í íbúðinni þar sem vopnin fundust.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×