Innlent

Hægir verulega á útgjaldaaukningu

Kostnaður vegna embættis Ríkislögreglustjóra jókst um 19 milljónir á síðasta ári en frá árinu 1998 hefur kostnaður vegna embættisins rúmlega þrefaldast. Þrátt fyrir aukin heildarútgjöld gætti verulegs aðhalds í fyrra miðað við árið áður og flestir kostnaðarliðir lækkuðu eftir samfellda útþenslu frá árinu 1998. Guðmundur Guðjónsson, yfirlögregluþjónn hjá embætti Ríkislögreglustjóra, segir að útgjaldaaukningin frá 1998 eigi sér eðlilegar skýringar. "Embættinu hafa verið falin mjög stór verkefni á síðustu árum og undir það hefur verið felld margvísleg þjónusta við lögregluna í landinu og fleiri. Það er því ekki um beinan kostnaðarauka fyrir ríkissjóð að ræða hvað þessi verkefni varðar. Hér er fyrst og fremst um hagkvæmnis- og samræmingarsjónarmið að ræða. Einnig má nefna kostnað vegna verkefna sem stafa af alþjóðlegum skuldbindingum." Að sögn Guðmundar Stefánssonar, skrifstofustjóra hjá embætti Ríkislögreglustjóra, var embættið innan fjárheimilda í fyrra. "Endanleg niðurstaða liggur þó ekki fyrir og er því byggt á bráðabirgðatölum í skýrslunni. Fjársýsla ríkisins er þessa dagana að ganga frá reikningnum fyrir embættið," sagði Guðmundur í samtali við Fréttablaðið. Útgjöld vegna húsnæðis fara langt með að tvöfaldast milli áranna 2002 og 2003. Í skýrslunni er sagt að stærstur hluti húsnæðiskostnaðar sé húsaleiga en auk þess komi til kostnaður vegna framkvæmda við húsnæði Fjarskiptamiðstöðvar lögreglunnar, sem Ríkislögreglustjóri hefur umsjón með. Stofnkostnaður vegna breytinga á Fjarskiptamiðstöðinni vegur þyngst en til þess að mæta honum fékk embættið sérstaka aukafjárveitingu upp á 23 milljónir. Þá hefur leiga á húsnæði embættisins við Skúlagötu hækkað töluvert. Stærsti útgjaldarliður embættisins er launakostnaður og hefur hann vaxið hröðum skrefum síðan embættið var stofnað árið 1997. Starfsmönnum fjölgaði um fimm milli áranna, úr 72 í 79, en launakostnaður á sama tíma fór úr rúmum 418 milljónum króna í rúmar 465 milljónir. Í fyrra færðust Almannavarnir ríkisins til embættis Ríkislögreglustjóra og með þeim fjórir starfsmenn. Því til viðbótar var fjölgað um tvo lögreglumenn í efnahagsbrotadeild og einn löglærðan fulltrúa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×