Innlent

Njála á tölvutæku formi

Nýrri útgáfu Brennu Njálssögu er ætlað að glæða áhuga ungs fólks á þessari vinsælustu sögu Íslendingasagnanna. Í henni sameinast bók, bíó og kennsluforrit. Þessari nýju útgáfu Brennu Njálssögu fylgir geisladiskur fyrir tölvur. Á honum er kvikmynd úr hluta Njálu sem gerð var í fyrra og skartar mörgum okkar þekktustu leikurum í aðalhlutverkum. Á diskinum er þar að auki að finna viðtöl við fræðimenn og áhugamenn um söguna sem og kennsluforritið "Vefur Darraðar" en þar er texti sögunnar sem hægt er að ferðast í fram og tilbaka með hjálp leitarforrits. Auk þess eru ógrynni ljóða sem ort hafa verið út frá Njálu sem og myndir úr fyrri útgáfum Njálu á diskinum. Jón Karl Helgason, ritstjóri Bjarts sem gefur bókina út segir útgáfunni ætlað að glæða áhuga ungs fólks á sögunni. Hann segir framhaldsskólanema vana því að vinna með efni í tölvum og það sé skemmtilegt fyrir þá að fá ákveðna kafla sögunnar sjónræna og það auðveldi þeim að sjá söguna fyrir sér. Hann er bjartsýnn á að framhaldsskólakennarar taki þessu nýja kennsluefni tveimur höndum, það hljóti að gera kennsluna líflegri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×