Innlent

Árásarmaður laus úr haldi

Tuttugu og fimm ára maður sem er grunaður um að hafa gengið í skrokk á öðrum manni með hafnaboltakylfu, í Öxnadal nýlega, var látinn laus úr gæsluvarðhaldi á föstudaginn, - þremur dögum áður en gæsluvarðhaldsúrskurðurinn yfir honum rann út. Börn mannsins sem ráðist var á, voru viðstödd þegar til átakanna kom. Maðurinn er talinn hafa höfuðkúpubrotið mann á fertugsaldi í Öxnadal, aðfaranótt 5. ágúst. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald fram til dagsins í dag og þann úrskurð staðfesti Hæstiréttur. Óttast var að maðurinn gæti torveldað rannsókn málsins, til dæmis með því að hafa áhrif á vitni, ef hann gengi laus. Hann var þó látinn laus í síðustu viku, þar eð rannsókn var þá að mestu lokið að sögn lögreglu. Tilkynnt var um slys þegar lögregla og sjúkralið var kallað á vettvang í Öxnadal, en fljótlega kom í ljós að það var rangt. Þá hafði blætt inn á heila mannins, sem varð fyrir árásinni, auk þess sem hann kinnbeins- og nefbrotnaði. Í úrskurði læknis segir að áverkarnir hefðu hæglega getað leitt til mun alvarlegri afleiðinga, jafnvel dauða. Sjö voru á staðnum þegar til átakanna kom, á tveimur bifreiðum. Í annarri þeirra var fjölskylda á leið úr sumarbústað en ákveðið hafði verið að hin bifreiðin æki til móts við þau. Tvö börn og kona mannsins, sem hlaut áverkana, voru meðal þeirra sem voru á staðnum þegar átökin brutust út, en þau voru farin af vettvangi þegar lögreglu og sjúkralið bar að. Árásarmaðurin, sem og sá sem hlaut áverkana eru báðir frá Akureyri og hafa áður komið við sögu lögreglu vegna fíkniefnamála. Ekki er þó talið að til átakanna hafi komið vegna þess háttar viðskipta. að sögn lögreglu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×