Innlent

Má ekki gefa blóð í mánuð

Til að forðast sýkingu vesturnílarveiru hefur Blóðbankinn ákveðið að fólk sem ferðast hefur til Norður-Ameríku á tímabilinu frá 1. júní til 30. nóvember ár hvert gefi ekki blóð fyrr en mánuði eftir heimkomu. Að sögn Haraldar Briem sóttvarnalæknis er vesturnílarsótt sjaldgæf í Evrópu og því ekki verið tekin sambærileg ákvörðun vegna ferða þangað. "Sjúkdómurinn hefur hins vegar verið að breiðast út í Norður-Ameríku undanfarin ár, þar sem hann var nánast óþekktur." Í síðasta mánuði greindist Vesturnílarsótt í tveimur ferðamönnum sem sneru heim til Írlands úr sumarleyfi í Algarve í Portúgal. Haraldur segir ekki talda ástæðu til að vara við ferðalögum til landa þar sem sýkingar hefur verið vart. Embættið leggur þó til að fólk forðist moskítóbit eftir megni, því sjúkdómurinn berst með flugunum. Sóttvarnalæknir segir Vesturnílarsótt í flestum tilfellum einkennalausa eða væga, en hún geti þó valdið alvarlegum sjúkdómi í innan við einu prósenti tilfella. "Í eldra fólki getur þetta orðið svæsnara og komið upp sýking í miðtaugakerfi sem jafnvel getur leitt til dauða en það er mjög sjaldgæft," segir hann. Ráð Landlæknisembættisins til að verjast moskítóbiti á ferðalögum: 1 Klæðast langermaskyrtum, síðbuxum og lokuðum skóm úti við eftir sólsetur. 2 Bera mýflugnafælandi áburð á bera húð (bestu efnin innihalda DEET). 3 Hægt er að úða föt með mýflugnafælandi vökva. 4 Forðast svæði þar sem vitað er að mikið er af moskítóflugum. 5 Sofa í loftkældum herbergjum en moskítóflugur þrífast ekki þar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×