Innlent

Kapphlaupið mikla á Íslandi

Keppendur raunveruleikasjónvarpsþáttarins Amazing Race komu til Íslands um helgina. Keppendurnir gistu á Svartsengi við Bláa lónið. Einn hópur var dæmdur úr leik í fyrrakvöld en hinir ellefu yfirgáfu landið með sömu flugvél laust eftir hádegi í gær. Raunveruleikasjónvarpsþátturinn Kapphlaupið mikla, Amazing Race, teygði sig hingað til lands um helgina. Keppendur þáttarins ferðast um allan heim en þeir sem síðastir eru í mark á hverjum stað eru dæmdir úr leik. Tólf lið keppenda komu til landsins á sunnudagsmorgun en eitt liðanna var dæmt úr leik áður en haldið var af landi brott um hádegisbil í gær að sögn Atla Más Gylfasonar, ljósmyndara Víkurfrétta, sem fylgdi hópnum eftir. Slegið var upp búðum fyrir keppendurna á Svartsengi, við Bláa lónið, þar sem kveikt hafði verið á kyndlum við komu keppenda á endastöð í fyrrakvöld að sögn Atla Más. Keppni hófst á ný eldsnemma í gærmorgun að sögn Atla þegar keppendur héldu áleiðis til Reykjavíkur, fyrir utan einn hóp sem villtist til Reykjanesbæjar. Allir hóparnir náðu þó sömu flugvél til Kaupmannahafnar laust eftir klukkan eitt í gærdag. Förinni var þaðan heitið til Óslóar þar sem keppnin heldur áfram. "Það var góð stemning í hópnum þrátt fyrir mikið stress," segir Ásborg Guðmundsdóttir, sölumaður Icelandair á Keflavíkurflugvelli sem afgreiddi hópana ellefu um flug frá landinu. "Þetta var mikill hasar."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×