Innlent

Ákærður fyrir manndráp af gáleysi

Fjörtíu og fjögurra ára Þjóðverji hefur verið ákærður af sýslumanninum í Hafnarfirði fyrir manndráp af gáleysi og ölvun við akstur þegar hann velti bíl sem hann ók laugardaginn 24. júlí. Einn farþeganna í bílnum lést af völdum áverka sem hann hlaut í bílveltunni. Maðurinn er sakaður um að hafa ekið bílnum frá Kleifarvatni og áleiðis vestur Krísuvíkurveg í átt til Hafnarfjarðar þar sem hann velti bílnum við Vatnsskarð. Vínmagn í blóði mannsins var 0,89 prómill. Farþeginn sem lést kastaðist út úr bílnum og hafnaði undir bifreiðinni og lést fimm dögum eftir slysið. Þjóðverjinn var úrskurðaður í farbann til 27. ágúst næstkomandi. Málið gegn honum verður þingfest í vikunni. Krafist er að maðurinn verði dæmdur til refsingar og verði sviptur ökuréttindum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×