Innlent

Fjölmenni á tónleikum í Kerinu

Talið er að þrjú til fjögur þúsund manns hafi verið á tónleikum á afar sérstæðum stað á Suðurlandi í dag. Tónleikarnir fóru fram í hinu eina sanna Keri í Grímsnesi, fimm þúsund ára gömlum eldgíg. Svipaðir tónleikar fóru fram fyrir sautján árum og þá sungu meðal annarra Kristján Jóhannsson og Kristinn Sigmundsson. Og í dag, sautján árum síðar, var leikurinn endurtekinn með nýjum stórsöngvurum. Þeir voru Sigrún Hjálmtýsdóttir, Davíð Ólafsson, Jóhann Friðgeir Valdimarsson og Ólafur Kjartan Sigurðsson. Auk þeirra komu fram Karlakór Selfoss, Jóhann Sigurðarson leikari, Árni Johnsen, sem var kynnir og fleira á tónleikunum, og hinn 10 ára Alexander Jarl Þorsteinsson frá Vestmanaeyjum en hann söng sig inn í hug og hjörtu viðstaddra. Þess má geta að hann hefur ekki komið oft fram. Það var Hestamiðstöð Suðurlands sem stóð fyrir tónleikunum í fjáröflunarskyni fyrir uppbyggingu mótsvæðis þeirra á Rangárbökkum. Mikil og góð stemning var í gígnum djúpa, hljómburður góður og veðrið eins gott og á varð kosið, enda naut fólk sín í veðurblíðunni á fögrum stað við fagra tónlist. Nokkur örtröð var við veginn um Grímsnesið en að sögn lögreglunnar á Selfossi gekk allt vel fyrir sig og engin óhöpp urðu. Árni Johnsen segir tónleikagesti hafa sýnt frábæra umgengni því eftir að tónleikunum var lokið var rétt eins og lóan hefði sest og flogið aftur; meira sást ekki á svæðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×