Innlent

Skerðing upp á 11 þúsund tonn

Skerðing aflamarksskipanna í þorski á komandi fiskveiðiári nemur um 11.000 tonnum, miðað við slægðan fisk, samkvæmt reglugerð sem sjávarútvegsráðherra hefur gefið út. Þetta er vegna línuívilnunar og veiðiheimilda sem færðar verða dagabátum samkvæmt lögum frá síðastliðnu vori. Fréttavefur LÍÚ greinir frá þessu. Alls nemur skerðingin tæpum 8% en eftir að tillit hefur verið tekið til þess að leyfilegur heildarafli verður minni á komandi fiskveiðiári nemur skerðingin tæpum 7%. Leyfilegur heildarafli á komandi fiskveiðiári verður 205 þúsund tonn af þorski sem er fjögur þúsund tonnum minna en á yfirstandandi ári. Nú er unnið að því að reikna út úthlutun á skip og skipaflokka og samkvæmt upplýsingum Fiskistofu er gert ráð fyrir að skerðing aflamarksskipanna á komandi fiskveiðiári verði tæp 8%. Sú skerðing er til komin vegna þess að leyfilegur heildarafli minnkar um fjögur þúsund tonn á milli ára og einnig vegna þess að 3.375 tonn eru tekin frá vegna línuívilnunar. Ríflega sjö þúsund tonn eru jafnframt tekin af aflamarksskipunum til að afhenda dagabátum sem flytjast yfir í krókaaflamarkskerfið. Á yfirstandandi fiskveiðiári komu um 144.600 tonn af slægðum þorski í hlut aflamarksskipanna, en á næsta fiskveiðiári verður leyfilegur heildarafli þeirra rúmlega 133.100 tonn af slægðum þorski.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×