Innlent

Eldurinn kviknaði út frá grilli

Karl og kona sluppu naumlega og ómeidd út úr brennandi húsi sínu við Brekkubæ í Árbæjarhverfi í Reykjavík á áttunda tímanum í morgun. Eldurinn mun hafa kviknað út frá gasgrilli sem stóð úti við og náði eldurinn að teygja sig upp eftir húsveggnum, alveg upp í þakskeggið, svo eldurinn komst í þakklæðningu. Talsverður eldur logaði í húsinu, sem er tveggja hæða raðhús, þegar fjölmennt slökkvilið kom á vettvang en greiðlega gekk að slökkva sjálfan eldinn. Hins vegar þurftu slökkviliðsmenn að rífa járn af stórum hluta þaksins til að slökkva í glæðum og tók það um tvær klukkustundir. Ekki var hætta á að eldurinn næði í áfast hús. Ljóst er að miklar skemmdir hafa orðið á húsinu og líka innanstokks. Fólkið taldi sig hafa slökkt tryggilega á gasgrillinu í gærkvöldi en hvað sem veldur kviknaði eldurinn út frá því. Tilkynningar frá nágrönnum um eldinn voru þess eðlis að allt tiltækt lið á stöðvum á höfuðborgarsvæðinu var í fyrstu kallað út. Myndin er úr myndasafni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×