Menning

Alltaf verið matvandur

Þó að Sigurður Þ. Ragnarsson, oftar nefndur Siggi stormur, sé oft djarfur í veðurspám fyrir landann er hann ragur eins og kettlingur þegar kemur að framandi mat. Hann segir að það megi rekja til þess að hann hefur alltaf verið matvandur þó að matarsmekkurinn hafi vissulega þroskast á seinni árum. "Ég er ótrúlega smeykur við framandi exótíska rétti og held mig við það sem ég þekki best," segir Siggi. "En bara það að uppáhaldsmaturinn minn skuli vera humar sannar að ég er á réttri leið. Ég hefði ekki sett hann inn fyrir mínar varir fyrir fimm árum." Siggi eldar humarinn sjálfur og lumar á allskyns göldrum í matreiðslunni. "Ég leik mér með humarinn, grilla hann bæði í skel og án, marínera hann í hvítlaukslegi og örlitlum pipar og svo bý ég til humarsúpu, svo dæmi sé tekið. Við erum að tala hérna um alvöru flauelsmat," segir Siggi, og rymur í honum við tilhugsunina. "Í súpuna nota ég lúðu og skötusel, sem er reyndar enn einn fiskurinn sem ég hefði einhverntíma neitað að borða, og með súpunni vil ég hafa gourmé-brauð og gott Chardonnay-hvítvín." Siggi segist vera rjómasósumaður og býr til dýrðlegar sósur með grillaða humarnum. "Svo er mikilvægt fyrir mig að hreinsa görnina úr, ég borða nefnilega ekki garnir," segir hann ákveðinn. Aðspurður hvort hann sé í góðum "humarsamböndum" segist Siggi eiga góða vini og neitar að ræða það meir. "Þetta er dýr matur og ég elda hann oft. Það segir allt sem þarf." Siggi segist vera allur af vilja gerður að víkka sjóndeildarhringinn þegar kemur að mat og matargerð. "Ólívur, hummus og kus kus eru ekki enn á matseðlinum, en ég er að minnsta kosti búin að taka hvítlaukinn inn. Þetta kemur smátt og smátt, sem er eiginlega nauðsynlegt, því þegar veðurkortunum sleppir finnst mér skemmtilegast að elda mat," segir hann og lofar að lokum bongóblíðu um helgina.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×