Lífið

Örtrefjaklútar í gluggaþvott

Ný aðferð er að ryðja sér til rúms í gluggahreinsun, einkum að innanverðu. Hún er fólgin í að úða hreinu vatni úr brúsa á rúðuna og strjúka hana með örtrefjaklút. Klútarnir eru svo fínofnir að ef 35x30 cm klútur væri rakinn upp myndi þráðurinn ná héðan til London og þar sem engin sápa er notuð myndast engir taumar og gluggarnir haldast lengur hreinir en ella. "Það er viss kúnst að nota klútinn," segir Friðrik Ingi Friðriksson, sölumaður í Bestu. "Það á að brjóta hann saman eins og handklæði og nota hverja hlið einu sinni. Síðan skipta yfir á næstu hlið og þannig koll af kolli. Þegar allar hliðar hafa verið óhreinkaðar er klúturinn settur í þvottavél. Þar er hann þveginn en ekki má nota mýkingarefni í vélina." Friðrik segir sápuvatn, kúst og sköfu yfirleitt gagnast betur utanhúss, þar sem um seltu og önnur grófari óhreinindi sé að ræða. Aðalatriðið sé að hafa réttu áhöldin. "Ég mæli með góðum kústi með svínshárum og uppþvottalegi út í vatnið. Skafa síðan allt af með gúmmísköfu. Ef menn kunna hinar átta hreyfingar gluggaþvottamanna þá er það gott, annars bara skafa beint niður."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×