Innlent

Auðir seðlar taldir sér

Forsíðufyrirsögn Morgunblaðsins í dag um að auð atkvæði verði birt sérstaklega túlkar Mörður Árnason alþingismaður sem skilaboð blaðsins til lesenda um að skila auðu í forsetakosningunum."Auð atkvæði verða birt sérstaklega í fyrsta sinn", stóð yfir þvera forsíðuna. Þetta hafa ýmsir túlkað sem skilaboð blaðsins til lesenda um hvernig þeir eigi að verja atkvæði sínu. Mörður Árnason, alþingismaður segir það nokkuð augljóst að Morgunblaðið hafi verið að segja lesendum sínum að skila auðu. Hann segist ekkert hafa á móti því að Morgunblaðið gefi út línur til lesenda sinna, hins vegar hafi það sjálft sagt að munur sé á því sem það segir í ritstjórnargreinum og leiðara annars vegar og hins vegar því sem fram kemur í fréttum sem eigi að vera fagleg fréttamennska. Mörður telur Morgunblaðið því vera að svindla á lesendum sínum. Þórunn Guðmundsdóttir, oddviti yfirkjörstjórnar segir að vegna áhuga fjölmiðla og almennings á auðum atkvæðum hafi verið ákveðið að birta þau sérstaklega þegar tölur verða lesnar upp. Hún segir að auðir seðlar séu í raun flokkaðir sem ógildir í kosningalögunum. Það var sameiginleg ákvörðun nokkurra yfirkjörstjórna að telja þá sér að þessu sinni. Mörður Árnason telur fyrirsögn Morgunblaðins dæmi um breytta stefnu blaðsins. Hann segir að blaðið hafi verið orðið nokkuð traust fréttablað. Nú væri það aftur orðið að flokksblaði og eigi það ekki eingöngu við ritstjórann og það sem hann skrifi í leiðurum sínum heldur líka um fréttaflutninginn. Hann segir að verið sé að misnota blaðamenn blaðsins.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×