Innlent

Opinberum gjöldum um að kenna

Ísland er dýrasta ferðamannaland í heimi samkvæmt útreikningum breska fyrirtækisins ECA fyrir norska blaðið Verdens Gang. Fólk í ferðaþjónustu og veitingarekstri segir opinberum gjöldum um að kenna og að smásöluálagning sé hlægilega lág hér á landi miðað við önnur lönd. Samkvæmt niðurstöðunum sem birtar voru í Verdens Gang er hvergi dýrara að vera ferðamaður heldur en á Íslandi. Næst dýrast er í Japan og Noregur er í þriðja sæti, en ódýrast er í Egyptalandi. Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri samtaka ferðaþjónustunnar segir opinber gjöld ástæðu hins háa verðs. Nágrannalönd okkar hafi verið að lækka skatta á áfengi og matvæli, en ekkert sé að gert hér á landi þar sem við séum hvorki í Evrópusambandinu, né eigum landamæri að öðrum löndum. Hún segir nauðsynlegt að stjórnvöld búi til betra rekstrarumhverfi fyrir þá sem stunda veitingarekstur og annan rekstur tengdan ferðaþjónustu. Margrét Rósa Einarsdóttir, staðahaldari í Iðnó tekur undir sjónarmið Ernu. Hún bendir á að verðmunur á vínum út úr búð í Spáni og síðan á veitingastað í sama landi sé mjög mikill. Munurinn hér á landi sé ekki mikill og því álagningin á veitingastöðum hér á landi ekki mikil. Hún taldi að ef opinberu gjöldin lækkuðu myndu veitingastaðir geta lækkað útsöluverðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×