Lífið

Nýr leikskóli tekinn í notkun

Fyrr í mánuðinum skiluðu ÍAV af sér leikskólanum við Finnmörk í Hveragerði. Herdís Þórðardóttir, formaður bæjarráðs Hveragerðisbæjar, tók við lyklum að nýja leikskólanum úr hendi Kristjáns Arinbjarnarsonar, yfirmanns framkvæmdasviðs ÍAV á Suður- og Vesturlandi. Fyrsta skóflustungan að verkinu var tekin í byrjun október í fyrra og hófust framkvæmdir skömmu síðar. Á heimasíðu Hveragerðisbæjar kemur fram að unnið hafi verið eftir svokölluðum stjórnunarsamningi milli ÍAV og Hveragerðisbæjar og að framkvæmdin hafi í alla staði gengið vel. Leikskólanum er skilað fullfrágengnum bæði að utan og innan og sama gildir um lóðina í kringum húsið. Þegar búið verður að koma fyrir húsgögnum, eldhústækjum og öðrum innanstokksmunum á leikskólanum mun starfsemin hefjast. Gert er ráð fyrir því að starfsemin verði komin í fullan gang að afloknum sumarfríum starfsmanna og barna á leikskólaaldri. Með tilkomu leikskólans verður biðlistum eftir leikskólaplássum í Hveragerði fyrir börn eldri en tveggja ára eytt.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×