Innlent

Gylfi Þ. Gíslason látinn

Gylfi Þ. Gíslason, fyrrverandi prófessor, alþingismaður og ráðherra er látinn á áttugasta og áttunda aldursári. Gylfi var einn helsti stjórnmálaleiðtogi liðinnar aldar. Hann fæddist 7. febrúar árið 1917 í Reykjavík og lauk doktorsprófi í rekstrarhagfræði frá háskólanum í Frankfurt árið 1954. Gylfi sat á þingi fyrir Alþýðuflokkinn í 32 ár, eða frá árinu 1946 til 1978, og gegndi ráðherraembætti samfellt í fimmtán ár, frá 1956 til 1971, allan tímann sem menntamálaráðherra en einnig sem iðnaðar- og viðskiptamálaráðherra. Megnið af ráðherratíð sinni sat hann í svokallaðri viðreisnarstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks. Þá var hann þingflokksformaður Alþýðuflokksins í áratug, frá 1968 til 1978, formaður flokksins frá 1968 til 1974 og forseti sameinaðs þings. Gylfi var einnig prófessor í viðskiptadeild Háskóla Íslands um árabil auk þess að gegna margvíslegum öðrum trúnaðarstörfum. Auk stjórnmála- og kennslustarfa sýndi Gylfi að hann var liðtækt tónskáld og samdi fjölda kunnra sönglaga sem komið hafa út á hljómplötum. Eiginkona Gylfa er Guðrún Vilmundardóttir og eignuðust þau þrjá syni, prófessorana Þorstein og Þorvald, og Vilmund sem á sínum tíma sat á Alþingi og gegndi ráðherraembætti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×