Innlent

Keppst við að ná tali af Clinton

Keppst er um að ná tali af Bill Clinton sem kemur til landsins á þriðjudag. Forsætisráðherra, utanríkisráðherra og forseti Íslands vilja allir hitta Clinton, sem er þó hér á landi í einkaheimsókn. Gert er ráð fyrir að Bill Clinton komi hingað til lands á þriðjudagsmorgun og hitti Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, í Ráðherrabústaðnum klukkan kortér í ellefu. Þeir ræðast við í hálfa klukkustund. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar mun Clinton einnig hitta Ólaf Ragnar Grímsson, forseta, á Bessastöðum síðdegis. Loks mun hann hitta Davíð Oddsson, forsætisráðherra, að máli, en síðdegis lá ekki fyrir hvar og hvenær sá fundur yrði. Ljóst er að allir vilja fá að spjalla við forsetann fyrrverandi, sem er þó hér á landi í einkaerindum. Fyrri hluta sama dags verður Hillary Clinton í Bláa lóninu með sendinefnd Bandaríkjaþings að fræðast um vetni og aðrar umhverfisvænar orkulindir, auk þess sem utanríkisráðherra bíður nefndinni í hádegisverð. Hvað þau hjónin ætla sér að gera fleira hér á landi er óvíst, enda má gera því skóna að þau vilji hugsanlega fá að vera í friði þær stundir sem hvorugt situr fundi af einhverju tagi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×