Innlent

Rotturnar fúlsa við honum

Óttast er að skaðvaldur af sniglastofni sé að nema hér land, en hann hefur farið mikinn í Evrópu. "Hann heitir Spánarsnigill og er ættaður frá Íberíuskaga. Síðustu áratugi hefur hann verið að dreifast norðvestur á bóginn í Evrópu," segir Erling Ólafsson, skordýrafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands. Hann segir vitað til þess að snigillinn hafi numið land í Svíþjóð, Danmörku, Noregi og Færeyjum. "Það er algjör sprenging í fjölgun hans," segir Erling og bætir við að snigillinn sé enginn aufúsugestur. "Þetta er mikil skepna og stór. Flestir þekkja svartsnigilinn okkar. Þessi er svona helmingi stærri, rauður á lit og mikið átvagl því hann étur allt sem fyrir verður. Hann fer í blómabeðin og étur þau. Svo fer hann í matjurtagarðinn, en er þó ekki mjög hrifinn af kryddjurtum og lyktarsterkum plöntum." Á ensku er snigillinn kallaður Killer slug, enda lætur hann ekki nægja að leggjast á gróður heldur drepur hann líka smærri snigla og skordýr og étur. Þá segir Erling ekkert gagn hafandi af sniglinum því hann sé með öllu óætur. "Rotturnar vilja hann ekki einu sinni, hann er svo slímugur," segir hann, en snigillinn ver sig með mikilli slímframleiðslu. Hingað til segir Erling snigilinn bara hafa fundist tvisvar, í sumar og í fyrrasumar, bæði skiptin í Reykjavík. Einnig hafa þó borist óstaðfestar fregnir af því að snigillinn hafi fundist í Hveragerði. "Ég hef ekki heyrt af því, en það er ekki ólíklegt því þar myndi hann lifa góðu lífi á háhitasvæðunum." Erling segir snigilinn þola illa mjög mikil frost, en þó ætti hann að lifa af veturinn hér, að minnsta kosti á höfuðborgarsvæðinu og víða á Suðurlandi. "Snigillinn er mjög illa þokkaður hér í nágrannalöndunum og menn hafa engin ráð með að losna við hann því hann fjölgar sér alveg hreint eins og kanína," segir Erling og bætir við að hann hafi ekki trú á að það náist að hemja vöxt snigilsins hér, nái hann sér á annað borð á strik. "Það er kannski fullmikið sagt að hann hafi numið hér land, en fyrst búið er að finna hann tvisvar er að minnsta kosti hægt að tala um að hann banki á dyrnar."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×