Innlent

Sjálfboðaliðar unnu þrekvirki

Sjálfboðaliðar unnu þrekvirki þegar barist var við eldinn í Hringrás í næstum tvo sólarhringa. Slökkviliðið segir að aðstoð þeirra verði ekki ofmetin. Hrólfur Jónsson slökkviliðsstjóri sá ástæðu til að þakka sérstaklega þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem lögðu hönd á plóginn. Líklega hefur þessi eldsvoði haft fleiri hliðarverkanir en flestir aðrir sem orðið hafa í Reykjavík. Aldrei áður hefur til dæmis þurft að flytja um sexhundruð manns nauðaflutninga af heimilum sínum. Slökkviliðið hafði auðvitað nóg að gera við að berjast við eldinn og því voru kallaðir út margir sjálfboðaliðar til aðstoðar. Má þar nefna björgunarsveitir, strætisvagnabílstjóra, Rauða krossinn og fleiri. Og sumir mættu upp á sitt eindæmi, eins og til dæmis leigubílstjórar sem óku fólki ókeypis í skjólið, og starfsmenn ET-flutningaþjónustunnar sem er í næsta húsi við Hringrás. Þeir notuðu stórvirkar vinnuvélar til að aðstoða slökkviliðið við að rjúfa og flytja burt brennandi stafla af dekkjum og öðru dóti. Einari Gíslasyni, framkvæmdastjóra ET, var um og ó hvað menn hans gengu rösklega til verks. Hann fylgdist með inni í húsi fyrirtækisins og stóð ekki á sama þegar hann sá starfsmenn sína fara inn í eldinn og velti fyrir sér hvort þeir kæmu út aftur. Vatnsskortur háði slökkviliðinu um tíma og þá var leitað til danska varðskipsins Triton sem lá í Sundahöfn. Þar um borð eru mjög öflugar dælur sem dældu vatni fyrir slökkviliðið látlaust í sólarhring. Tor Nilsen, 1. stýrimaður á Triton, segir hafnaryfirvöld hafa komið að máli við áhöfnina nokkru eftir að eldsvoðans varð vart og spurt hvort hún gæti dælt sjó til að nota við slökkvistarfið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×