Innlent

Hringrás líklega ekki bótaskylt

Ólíklegt þykir að fyrirtækið Hringrás sé bótaskylt vegna þess tjóns sem íbúar í nágrenni við fyrirtækið urðu fyrir við eldsvoðann. Talið er að tjónið hlaupi á milljónum. Snörum viðbrögðum lögreglu og slökkviliðs er þakkað að ekki fór verr. Fulltrúar stærstu tryggingarfélaganna, hafa í gær og í morgun, kannað ástand íbúða í nágrenninu og víða eru hreinsunarstörf hafin. Að sögn yfirmanna tjónadeilda hjá VÍS, TM og Sjóvá-Almennum skipta þeir tugum sem haft hafa samband við hvert fyrirtæki en búist er við að mun fleiri eigi eftir að hafa samband. Helsta umkvörtunarefnið er brunalykt í íbúðum og í einstaka tilfellum hefur sót borist inn. Lögregla og slökkvilið létu þau boð berast til íbúanna að loka gluggum og forða sér út og eru talsmenn tryggingarfélaganna sammála um að það hafi dregið verulega úr eignaskemmdum. Lögboðin brunatrygging húseigna bætir tjón á loftum, gólfum, veggjum og á föstum innréttingum, þar með töldum tilsniðnum og föstum teppum, en ekki tjón á innbúi. Sérstaka innbús- eða fjölskyldutryggingu þarf til að innbúi fáist bætt og samkvæmt tölum frá Sjóvá- Almennum eru á milli 20 og 25 prósetna heimila ekki með slíka tryggingu. Nákvæmar tölur liggja ekki fyrir um hversu mörg heimili urðu fyrir tjóni vegna brunans, né heldur hver tryggingarfjárhæðin verður. Þó er ljóst að kostnaður tryggingarfélaganna mun hlaupa á milljónum. Talsmaður Tryggingamiðstöðvarinnar segir ólíklegt að endurkröfuréttur sé fyrir hendi og talsmaður Sjóvár-Almennra bendir á að við bruna skapist ekki endurkröfuréttur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×