Innlent

Um 76% á móti verkfalli

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins eru 75,9 prósent þjóðarinnar andvíg boðuðu verkfalli grunnskólakennara, en einungis 24,1 prósent eru fylgjandi. Enginn teljandi munur var á afstöðu kynjanna, en svo virðist sem stuðningur við verkfallið sé ívið meiri á landsbyggðinni en í þéttbýli. Um 27 prósent landsbyggðarfólks sögðust vera fylgjandi aðgerðunum, en 73 prósent á móti. Jón Pétur Zimsen, grunnskólakennari í stjórn Kennararfélags Reykjavíkur, segir niðurstöðu könnunarinnar sýna að fólk sé almennt á móti verkföllum. "Verkföll eru neyðarúrræði og þau eru aldrei vinsæl," segir Jón. Anna María Proppé framkvæmdastjóri samtakanna Heimili og skóli bendir á að verkfallsaðgerðir kunni að vera óvinsælar vegna þess að margir telji að kennarar hafi samið mjög vel við síðustu kjarasamninga. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson formaður stjórnar Samtaka íslenskra sveitarfélaga, sem er viðsemjandi grunnskólakennara, segir niðurstöðuna endurspegla þann einlæga vilja fólks að ekki komi til verkfalls. Athygli vekur að hlutfall óákveðinna í könnuninni er ekki hátt, en 10,6 prósent kváðust óákveðin í afstöðu sinni. Tæp 2 prósent neituðu að svara. Hringt var í 800 manns.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×